Logi Gautason
Logi Gautason hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni rétt í þessu. <i>,,Logi hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í vinstra horninu á undanförnum árum. Logi sem er listamaður innan sem utan vallar er fæddur árið 2005, snöggur og teknískur leikmaður sem getur skorað mörk í öllum regnbogans litum,"</i> segir í tilkynningunni á heimasíðu KA. <i>„Það er fagnaðarefni að Logi skuli ætla að vera áfram í herbúðum KA. Logi er einstaklega skemmtilegur drengur sem hefur mikla burði til þess að verða einn fremsti hornamaður deildarinnar með réttu hugarfari og góðum æfingum. Hann hefur sýnt það hingað til að hann er óhræddur við að taka færin sín og nýtir þau vel. Ég sé mikla framtíð fyrir Loga hjá KA og í handboltanum“</i> sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA. Logi skoraði 31 mark fyrir KA í Olís-deildinni í vetur og var með 64,6% skotnýtingu samkvæmt HB Statz.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.