Elvar Þór Ólafsson
Elvar Þór Ólafsson hefur gert nýjan samning við Fjölni. Elvar hefur verið burðarás Fjölnis í nokkur ár en liðið féll úr Olís-deildinni í vetur og leikur því í Grill66-deildinni á nýjan leik á komandi tímabili. ,,Það gleður okkur að þessi uppaldi strákur hafi gert nýjan samning," segir í tilkynningu Fjölnis við undirskrift. Elvar Þór lék 18 leiki með Fjölni í Olís-deildinni í vetur og skoraði í þeim leikjum 32 mörk. Elvar Þór glímdi við meiðsli á tímabilinu þar sem hann handarbrotnaði og missti þar af leiðandi af fjórum leikjum. Þjálfarabreytingar hafa orðið hjá Fjölni fyrir næsta tímabil en Gunnar Steinn Jónsson sem var spilandi þjálfari Fjölnis á síðustu leiktíð hefur sagt skilið við sitt uppeldisfélag og hefur Guðmundur Rúnar Guðmundsson tekið við liðinu en Guðmundur var aðstoðarþjálfari Gunnars Steins á síðustu leiktíð.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.