Sara Katrín Gunnarsdóttir
Sara Katrín Gunnarsdóttir hefur gengur til liðs við Stjörnuna frá Haukum en þetta tilkynnir Stjarnan á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. Sara Katrín er 23 ára gömul, vinstri skytta sem er uppalin í HK. Hún hefur undanfarin tvö ár leikið með Haukum en hún varð bikarmeistari með Haukum í síðasta tímabili. Sara Katrín lék 30 leiki með Haukum á síðasta tímabili og skoraði í þeim leikjum 36 mörk. ,,Sara Katrín er leikmaður sem ég er sannfærður um að eigi eftir að styrkja okkar lið mikið. Hún hefur allt sem góður leikmaður þarf að hafa og hlakka ég mikið til að vinna með henni á næsta tímabili," segir Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar í tilkynningunni. Sara Katrín er annar leikmaður Hauka sem gengur í raðir Stjörnunar í sumar en Margrét Einarsdóttir markvörður gekk til liðs við Stjörnuna á dögunum. Sara Katrín á fjölmarga landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Stjarnan endaði í 7.sæti Olís-deildarinnar í vetur en hafði betur í umspilsleikjum gegn Víkingi og Aftureldingu og hélt því sæti sínu í deild þeirra bestu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.