Morten Linder Heimasíða KA
Norðmaðurinn, Morten Boe Linder var kynntur í dag sem nýjasti leikmaður KA í Olís-deild karla. Morten skrifaði undir tveggja ára samning við KA. Morten sem verður 28 ára gamall síðar í júní mánuði er örvhentur og getur bæði leikið sem skytta og í horninu en hann gengur í raðir KA frá norska liðinu Fjellhammer. ,,Morten hefur verið í lykilhlutverki í liði Fjellhammers frá því hann gekk í raðir liðsins árið 2023 og verið meðal þeirra markahæstu manna en bæði árin hélt liðið sæti sínu í efstu deild," segir í tilkynningu KA. Áður hafði Morten leikið með Halden, einnig í efstudeild Noregs, þar sem hann var einnig meðal markahæstu manna en hann hefur undanfarin ár verið aðalvítaskytta bæði hjá Halden og Fjellhammers. Morten Boe Linder var liðsfélagi Ásgeirs Snæs Vignissonar hjá Fjellhammer áður en Ásgeir Snær gekk til liðs við Selfoss um áramótin 2023/2024. ,,Það er ljóst að koma Mortens mun styrkja vel við okkar lið sem verður að mestu byggt upp af ungum KA strákum og er það von okkar að Morten muni aðstoða okkur í þróun þeirra auk þess að taka mikla ábyrgð í spili liðsins. Við erum afar spennt fyrir komu hans norður og væntum mikils af þessum öfluga kappa," segir enn frekar í fréttatilkynningu KA. Morten er þriðji leikmaðurinn sem gengur í raðir KA á stuttum tíma en áður hafði KA fengið Leó Friðriksson frá Þór og Daníel Matthíasson frá FH.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.