Xavier Pascual
Spánverjinn Xavier Pascual hefur verið kynntur sem nýr þjálfari Egypta. Meðfram því starfi mun Spánverjinn halda áfram sem þjálfari ungverska stórliðsins Veszprem. Pascual hefur reynslu af því að þjálfa landslið því hann hefur tvívegis þjálfað rúmenska landsliðið. Fyrst frá árunum 2016-2018 og síðan aftur á árunum 2021-2024. Pascual þjálfaði Barcelona frá árunum 2009-2021 er hann tók við rúmenska stórliðinu Dinamo Bucuresti á sama tíma og hann var með rúmenska landsliðið. Hann kláraði síðan sitt fyrsta tímabil með Veszprem á þessu ári með því að gera þá að landsmeisturum í Ungverjalandi eftir sigur á Pick Szeged. Veszprem féll þó hinsvegar úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir ótrúlegt einvígi gegn Magdeburg. Pascual tekur við Egyptum af landa sínum, Juan Carlos Pastor sem hefur þjálfað Egypta frá árinu 2023 og náð góðum árangri. Pastor lét af störfum í upphafi apríl mánaðar. Egyptar höfnuðu í 5. sæti á HM í janúar eftir naumt tap fyrir Frökkum í 8-liða úrslitum, 34:33.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.