Martin Nagy í leik með Val (Björgvin Franz Björgvinsson)
Hinn 26 ára, ungverski markvörður Pick Szeged Martin Nagy hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið Helsingborg og gengur til liðs við þá í sumar. Martin Nagy gekk til liðs við Val sumarið 2020 og lék með liðinu í Olís-deildinni eitt tímabil og varð Íslandsmeistari með félaginu. Það tímabil myndaði hann markvarðarteymi með Einari Baldvini Baldvinssyni. Í kjölfarið gekk hann síðan til liðs við Íslendingalið Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. Martin hefur enn meiri Íslandstengingar því hann lék tímabundið undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Frederica áður en hann sneri aftur heim til Ungverjalands og hefur verið í markvarðarteymi Pick Szeged. Helsingborg voru nýliðar í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og komu mörgum á óvart með spilamennsku sinni. Liðið endaði í 6.sæti deildarinnar. Fór liðið alla leið í undanúrslit eftir sigur á Malmö í 8-liða úrslitum. Liðið beið lægri hlut gegn Hammarby í undanúrslitaeinvíginu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.