Þrjár stórar reglubreytingar tilkynntar
(Eyjólfur Garðarsson)

Myndin tengist fréttinni óbeint. (Eyjólfur Garðarsson)

Alþjóðahandboltasambandið, IHF tilkynnti á heimasíðu sinni í dag nokkrar breytingar á leikreglum sem taka gildi frá og með deginum í dag, 1.júlí 2025.

,,Handbolti hefur alltaf verið hannaður sem hraðskreiður, skemmtilegur og kraftmikil íþrótt og reglurnar hafa þróast á síðustu áratugum, þökk sé sjálfbærum vexti íþróttarinnar og aukinni útbreiðslu hennar um allan heim," segir í tilkynningunni frá IHF.

,,Hins vegar er enn hægt að fullkomna allt og leikreglurnar eru engin undantekning, þar sem Alþjóðahandboltasambandið (IHF) er í stöðugu sambandi við helstu hagsmunaaðila sína til að endurskoða leikinn. Þar sem lið á öllum stigum eru að bæta sig og ráða stöðugt þróun íþróttarinnar, er einnig kominn tími til að leikreglur IHF fylgi með."

Ein af helstu reglubreytingunum sem taka gildi frá og með 1. júlí 2025 eru 8:8d og 8:8e, sem áður kváðu á um að rautt spjald yrði sýnt fyrir leikmann sem skýtur boltanum í höfuð markmannsins við framkvæmd vítakasts. Reglunum hefur verið breytt þannig að refsingin er tveggja mínútna brottvísun.

Í rökum IHF við þessari breytingu segir að hugmyndin á bak við reglubreytinguna sé sú að hagsmunaaðilar lögðu til að allar aðstæður varðandi höfuðhögg yrðu settar undir sömu regluna. Er þá átt við að leikmaður sem skýtur í höfuðið á markverði í opnum leik fær tveggja mínútna refsingu fyrir, en ekki rautt spjald. IHF hefur því ákveðið að öll höfuðhögg verði refsuð jafnt með tveggja mínútna brottvísun.

Önnur breytt regla er regla 10:3b, sem vísar til upphafskastsins. Fyrir 1. júlí 2025 kvað þessi regla á um að „Dómararnir mega flauta þegar boltinn er innan miðjuhringsins og kastarinn er með að minnsta kosti annan fótinn innan miðjuhringsins.“

Þessari reglu hefur nú verið breytt í „Dómararnir mega aðeins flauta leikinn á þegar boltinn og leikmaðurinn með boltann eru allur innan miðjuhringsins.“

Þriðja og síðasta stóra breytingin sem IHF gerði er skilgreining á skrefareglunni svokallaðri.

Regla 7:3 hefur því einnig verið breytt, með víðtækari skilgreiningu á hámarki þriggja skrefa sem leyfð eru: „Það er heimilt að […] taka mest þrjú skref með boltann eftir að hafa tekið við boltanum frá öðrum leikmanni eða gripið hann eftir að hafa dripplað boltanum. Ef leikmaður tekur við eða grípur boltann án þess að fætur hans snerti gólfið, þá telst það ekki sem skref að setja annan eða báða fætur samtímis niður á gólfið.“

Undirritaður skilur þetta sem svo, að ef leikmaður grípur boltann eftir sendingu eða eftir niðurstungu í loftinu, að fyrsta snerting á gólfinu sama hvort það sé með öðrum fæti eða báðum í einu telst ekki sem fyrsta skref. Áður voru reglurnar þær, að ef leikmaður grípur boltann í loftinu og lendir jafnfætis þá telst sú snerting á gólfinu ekki sem skref, en lenti leikmaður með annan fótinn eftir að hafa gripið boltann í loftinu, taldist það sem fyrsta skref leikmannsins.

,,Þessi breyting miðar að því að einfalda skilninginn fyrir alla hagsmunaaðila. Hún fjarlægir einnig mismunandi túlkanir á því að telja skref í tengslum við leikaðstæður þar sem leikmaðurinn snertir gólfið með fæti/fótum sínum í fyrsta skipti eftir að hafa tekið við sendingu frá liðsfélaga og gripið boltann eftir að hafa tekið niðurstungu," segir í tilkynningu frá IHF.

Hægt er að lesa frekar um málið á heimasíðu IHF.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top