Guðmundur Bragi Ástþórsson (Eyjólfur Garðarsson)
Leikstjórnandinn, Guðmundur Bragi Ástþórsson yfirgefur Bjerringbro-Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í sumar. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið. Guðmundur gekk í raðir danska félagsins, Bjerringbro-Silkeborg í fyrra sumar og lék því einungis eitt tímabil með félaginu en hann var með klásúlu í samningi sínum í sumar að geta leitað annað, sem hann nýtti sér. Guðmundur var í litlu hlutverki hjá liðinu á tímabilinu, skoraði 23 mörk fyrir félagið en liðið endaði í 6.sæti deildarinnar og komst ekki í undanúrslitin um danska meistaratitlinn. Samkvæmt heimildum Handkastsins er Guðmundur í viðræðum við danska úrvalsdeildarliði Ringsted en liðið endaði í 10.sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Þar myndi Guðmundur hitta fyrrum liðsfélaga sinn í yngri landsliðum Íslands, Ísak Gústafsson sem gekk í raðir félagsins frá Val í sumar. Áður hafði Guðmundur spilað í Olís-deildinni með uppeldisfélagi sínu Haukum auk þess að hafa spilað með öllum yngri landsliðum Íslands. Guðmundur sem er fæddur árið 2002 var lykilmaður í liði Hauka undanfarin ár en hann fór með Haukum alla leið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn tímabilið 2022/2023 er liðið tapaði gegn ÍBV. Á síðustu leiktíð sinni með Haukum skoraði hann tæplega 160 mörk í Olís-deildinni.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.