Andri Már Rúnarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Andri Már Rúnarsson, leikmaður Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni er þessa dagana í viðræðum við stjórnendur félagsins til að rifta samningi sínum við félagið. Þetta herma heimildir Handkastsins. Faðir Andra Más, Rúnar Sigtryggsson var sagt upp störfum sem þjálfari Leipzig fyrr í sumar eftir að tímabilinu lauk í Þýskalandi. Rúnar var í viðtali við Vísi á dögunum þar sem hann ræddi um samningsmál Andra. „Við gengum bara þannig frá málunum þegar að þetta byrjaði að ef þessi staða kæmi upp þá væri hann með ákvæði í sínum samningi um að geta hreyft sig. Svo kemur bara í ljós hvort hann nýti það ákvæði eða ekki," sagði Rúnar í viðtalinu við Vísi. Samkvæmt heimildum Handkastsins strandar mál Andra í viðræðum við Leipzig á smáa letrinu og virðist eins og Andri Már eigi í erfiðleikum með að nýta sér það ákvæði í sínum samningi eins og hann hélt upphaflega. Það er því alls ekki víst að Andri geti rift samningi sínum við Leipzig en samkvæmt heimildum Handkastsins vill Andri Már fara frá félaginu. Andri Már átti stórkostlegt tímabil með Leipzig en eins stimplaði hann sig vel inn í íslenska landsliðið með góðri frammistöðu í þeim leikjum sem hann fékk tækifæri í undankeppninni fyrir Evrópumótið sem fram fer í janúar á næsta ári. Andri var markahæsti Íslendingurinn í þýsku úrvalsdeildinni og var lykilmaður í brothættu liði Leipzig á tímabilinu.Smáa letrið
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.