Snorri Steinn Guðjónsson (Kristinn Steinn Traustason)
Landsliðsþjálfarinn, Snorri Steinn Guðjónsson staðfestir í samtali við Handkastið að hafa átt í viðræðum við egyptska félagið Zamalek. ,,Þessar viðræður hafa staðið yfir í langan tíma en á þessum tímapunkti hentaði þetta ekki," sagði Snorri Steinn í samtali við Handkastið. ,,Það er margt sem spilar inn í en aðallega eru það fjölskylduaðstæður," sagði Snorri sem er í fullu starfi hjá HSÍ sem landsliðsþjálfari Íslands. ,,Ég er með klásúlu í samningi mínum við HSÍ að ég geti tekið við félagsliði meðfram landsliðsþjálfara starfinu. Ég er opinn fyrir því að fara taka við félagsliði meðfram landsliðinu en það þyrfti auðvitað að henta vel, bæði fjölskylduvegna og tengt landsliðinu," sagði Snorri sem bendir til að mynda á það að það yrði erfitt að vera með lið í þýsku úrvalsdeildinni samhliða íslenska landsliðinu. SC Zamalek er eitt af tveimur risum í egyptskum handknattleik en liðið hefur síðustu þrjú tímabil endað í 2.sæti deildarinnar í heimalandinu á eftir Al Ahly sem Daninn, Stefan Madsen þjálfaði á síðasta tímabili. Stefan Madsen er nú orðinn þjálfari Paris Saint-Germain. Zamalek varð egyptskur meistari fjögur ár í röð frá árinu 2018 til 2022. ,,Þeir sýndu mér mikinn áhuga og ég hef verið í viðræðum við þá í einhvern mánuð. Ég er nú búinn að hafna þessu nokkrum sinnum en þeir koma alltaf til baka."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.