Snorri Steinn neitaði tilboði frá Egyptalandi
(Kristinn Steinn Traustason)

Snorri Steinn Guðjónsson (Kristinn Steinn Traustason)

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands var samkvæmt heimildum Handkastsins í viðræðum við egyptska handboltaliðið, SC Zamalek um að taka við liðinu samhliða íslenska landsliðinu.

Herma heimildir Handkastsins að Snorri Steinn hafi neitað tilboði félagsins, oftar en einu sinni en egyptska liðið hefur verið í sambandi við Snorra Stein síðustu viku.

SC Zamalek er eitt af tveimur risum í egyptskum handknattleik en liðið hefur síðustu þrjú tímabil endað í 2.sæti deildarinnar í heimalandinu á eftir Al Ahly sem Daninn, Stefan Madsen þjálfaði á síðasta tímabili. Stefan Madsen er nú orðinn þjálfari Paris Saint-Germain. Zamalek varð egyptskur meistari fjögur ár í röð frá árinu 2018 til 2022.

Þrír landsliðsmenn Egypta á HM í janúar eru í liði Zamalek en Snorri Steinn stýrði íslenska liðinu gegn Egyptum í Zagreb í janúar þar sem Ísland hafði betur 27-24.

Þá hefur Snorri Steinn einnig verið orðaður við þjálfarastarf Leipzig í Þýskalandi en þýska liðið leitar nú að nýjum þjálfara liðsins eftir að félagið lét Rúnar Sigtryggsson fara eftir tímabilið. Ólíklegt þykir þó að Snorri Steinn taki við liði Leipzig. Hefur Spánverjinn, Raul Alonso verið hvað mest í umræðunni síðustu daga sem líklegastur til að taka við Leipzig.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top