Rytis hér til hægri á góðri stund Sævar Jónsson
Karlaliði Víkings í Grill 66 deildinni hefur borist góður liðsauki frá Stjörnunni samkvæmt heimildum Handkastsins. Þrír leikmenn hafa gengið í raðir liðsins og hafa þeir allir ritað undir eins árs samning. Munu félagaskiptin vera varanleg. Þetta eru þeir Daði Bergmann Gunnarsson, Rytis Kazakevicius og Kristján Helgi Tómasson. Þjálfari Víkings er hinn margreyndi, Aðalsteinn Eyjólfsson sem tók við liðinu fyrir síðasta tímabil. Víkingur fór í umspil um laust sæti í Olís-deildinni en tapaði gegn Selfossi í undanúrslitaeinvíginu.
Þeir munu allir styrkja breidd liðsins og er þeim öllum ætlað veigamikið hlutverk í liðinu. Víkingar hafa ekki farið í grafgötur með það opinberlega að markmið liðsins séu að vinna Grill 66 deildina í vetur og fara beint upp í Olís deildina.
Daði Bergmann er markmaður og fæddur 2005. Hann lék 5 leiki með Stjörnunni á síðastliðinni leiktíð.
Rytis er örfhentur hornamaður og fæddur 2004. Hann skoraði 16 mörk í 22 leikjum í Olís deildinni á síðastliðinni leiktíð.
Kristján Helgi er rétthent skytta og fæddur 2004. Hann er öllum hnútum kunnugur í Safamýrinni þvi hann lék sem lánsmaður með Víking á síðastliðinni leiktíð og skoraði 60 mörk í 16 leikjum og endaði sem næstmarkahæstur í liðinu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.