Kristján Páll Steinsson ((Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net)
Þrátt fyrir að vera enn samningsbundinn nýliðum Þórs í Olís-deildinni þá gerir Kristján Páll Steinsson markvörður liðsins ekki ráð fyrir að spila með liðinu í Olís-deildinni á komandi tímabili. Ástæðan er sú að Kristján Páll er að flytja til Englands, nánar tiltekið til London þar sem hann mun starfa. Þetta staðfesti Kristján Páll í samtali við Handkastið. Kristján Páll hefur staðið í marki Þórs undanfarin tímabil í Grill66-deildinni og verið einn efnilegasti markvörður landsins. Þórsarar hafa bætt við sig einum markmanni fyrir tímabilið en Patrekur Guðni Þorbergsson gekk í raðir Þórs frá HK fyrr í sumar. ,,Þetta var erfið ákvörðun og það er leiðinlegt að missa af tímabili í deild þeirra bestu. Ég hef samt fulla trú á strákunum og veit það að þeir eiga hellings séns í þessa deild," sagði Kristján Páll í samtali við Handkastið. Samkvæmt heimildum Handkastsins eru Þórsarar í leit af frekari styrkingum fyrir komandi tímabil í Olís-deildinni.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.