Teitur Örn Einarsson ((Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)
Landsliðsmaðurinn, Teitur Örn Einarsson leikmaður Gummersbach hefur verið orðaður við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen líkt og við greindum frá í fyrradag. Handkastið hafði samband við Teit og spurði hann út í þessar sögusagnir. Teitur segist voða lítið kippa sér upp við þessar sögusagnir og segist ekki vita hvaðan þær koma. ,,Ég verð áfram hjá Gummersbach," sagði Teitur í samtali við Handkastið og þvertekur fyrir það að vera hugsa sér til hreyfings. Teitur gekk í raðir Gummersbach fyrir síðasta tímabil frá Flensburg. Hjá Flensburg þjálfaði núverandi þjálfari Rhein-Neckar Lowen, Machulla, Teit. Það hefur sennilega spilað inn í þann orðróm að Teitur væri orðaður við Rhein-Neckar Lowen sem leitar nú logandi ljósi að nýrri örvhentri skyttu eftir að félagið seldi Ivan Martinovic til Veszprém í vikunni.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.