Andri Rúnars verður leikmaður Erlangen – Kynntur í fyrramálið
(Kristinn Steinn Traustason)

Andri Már Rúnarsson ((Kristinn Steinn Traustason)

Markahæsti íslenski leikmaðurinn í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð er að skipta um félag í deildinni. Andri Már Rúnarsson verður kynntur sem nýr leikmaður HC Erlangen í fyrramálið. Þetta herma heimildir Handkastsins.

Andri Már átti eitt ár eftir af samningi sínum við SC DHfK Leipzig en eftir að faðir hans, Rúnar Sigtryggsson var sagt upp störfum í júní var Andri Már staðráðinn í því að vilja yfirgefa félagið. Nú er svo komið að ósk hans hefur verið uppfyllt og hefur Andri Már verið keyptur undan samningi og skrifað undir samning við HC Erlangen.

Andri Már taldi sig vera í rétti til þess að rifta samningi sínum vegna ákvæðis um að hann gæti gert það ef faðir hans væri ekki lengur þjálfari liðsins. Það kom þó upp deilur milli deiluaðila að samkvæmt smáaletrinu er Rúnar Sigtryggsson faðir Andra, enn á launaskrá hjá Leipzig sem töldu því að Andri Már gæti því ekki losað sig undan samningi.

Það breytti þó ekki skoðun Andra Más að vilja fara frá félaginu en í morgun sögðum við frá því að samkvæmt þýska miðlinum SportBild vildi Leipzig fá 100.000 evrur, jafnvirði rúmlega 14 milljóna króna fyrir Andra Má fari hann frá félaginu í sumar. Svo virðist sem HC Erlangen hafi verið tilbúnir að kaupa Andra Má fyrir þá upphæð til að fá hann strax í sumar.

Andri Már hittir hjá HC Erlangen, fyrrum liðsfélaga sinn hjá Leipzig og landsliðsmanninn, Viggó Kristjánsson sem var keyptur til félagsins frá Leipzig í lok janúar á þessu ári. Erlangen rétt hélt sæti sínu í úrvalsdeildinni eftir mikla og harða fallbaráttu allt tímabilið.

Til að fylla skarð Andra Más hefur Leipzig krækt sér í miðjumanninn, Blæ Hinriksson leikmann Aftureldingar sem verður kynntur hjá félaginu á næstu dögum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top