Andri Már Rúnarsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Andri Már Rúnarsson var kynntur sem nýr leikmaður HC Erlangen nú rétt í þessu á samfélagsmiðlum HC Erlangen. Andri Már fór á kostum í liði Leipzig á síðustu leiktíð og endaði sem markahæsti Íslendingurinn í þýsku úrvalsdeildinni. Í tilkynningunni frá Erlangen segir að: ,,Hann mun deila leikstjórnendanstöðunni með norska landsliðsmanninum Sander Øverjordet." „Annars vegar er ég mjög ánægður með að hafa fengið mjög góðan leikmann í Andra Rúnarssyni. Hins vegar, með Kos, Nissen, Rúnarsson, Scheerer, Gömel og Genz, höfum við nú leikmenn sem eru allir 23 ára eða yngri og því langt frá því að vera komnir á lokastig þroska síns, sem munu eiga fast sæti í 16 manna leikmannahópnum okkar og sem vilja og geta þegar tekið ábyrgð. Við getum hlakkað til nýja tímabilsins,“ sagði þjálfarinn Johannes Sellin um félagaskipt. Andri Már átti eitt ár eftir af samningi sínum við SC DHfK Leipzig en eftir að faðir hans, Rúnar Sigtryggsson var sagt upp störfum í júní var Andri Már staðráðinn í því að vilja yfirgefa félagið. Nú er svo komið að ósk hans hefur verið uppfyllt og hefur Andri Már verið keyptur undan samningi og skrifað undir samning við HC Erlangen. Andri Már hittir hjá HC Erlangen, fyrrum liðsfélaga sinn hjá Leipzig og landsliðsmanninn, Viggó Kristjánsson sem var keyptur til félagsins frá Leipzig í lok janúar á þessu ári. Erlangen rétt hélt sæti sínu í úrvalsdeildinni eftir mikla og harða fallbaráttu allt tímabilið. Til að fylla skarð Andra Más hefur Leipzig krækt sér í miðjumanninn, Blæ Hinriksson leikmann Aftureldingar sem verður kynntur hjá félaginu á næstu dögum. Handkastið birtir viðtal við Andra Má á næstunni þar sem hann ræðir síðustu daga og vikur frá því að faðir hans var rekinn frá Leipzig.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.