KA hefur sótt tvo erlenda hægri hornamenn
(Heimasíða KA)

Giorgi Dikhaminjia ((Heimasíða KA)

Miklar breytingar hafa orðið á liði KA frá síðustu leiktíð þar sem liðið endaði í 9.sæti Olís-deildarinnar. Nýr þjálfari hefur tekið við liðinu og fimm leikmenn gengið til liðs við félagið.

Á sama tíma hafa þrír erlendir leikmenn yfirgefið KA, Dagur Árni Heimisson var seldur til Vals, Einar Rafn Eiðsson er samningslaus auk þess sem aðrir minni spámenn hafa flutt suður.

Fyrir helgi tilkynnti KA að georgíski landsliðsmaðurinn, Giorgi Dikhaminjia hafi samið við KA. Giorgi lék á síðustu leiktíð með pólska félaginu Azoty Pulawy en félagið sagði upp öllum samningum hjá leikmönnum félagsins og leikur ekki í pólsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Það sem vakti athygli Handkastsins að í fréttatilkynningu KA segir: ,,Giorgi sem er 28 ára gamall er 188 cm á hæð og leikur sem hægri skytta en getur einnig leyst hægra hornið af."

Og ef við rýnum í fréttatilkynninguna frá KA er þeir sömdu við Norðmanninn, Morten Boe Linder þá segir í tilkynningunni: ,,Morten sem verður 28 ára gamall síðar í mánuðinum er örvhentur og getur bæði leikið sem skytta og í horninu."

Handkastið viðurkennir að hafa lítið séð af Morten Boe Linder en Giorgi Dikhaminjia lék með georgíska landsliðinu gegn því íslenska í undankeppni EM 2026. Þar fór hann á kostum í fyrri leiknum og spilaði allan þann tíma sem hann lék í hægra horninu.

Handkastið fór því á stúfana varðandi þessa örvhentu leikmenn sem KA hefur sótt og reyndi að afla sér upplýsinga um leikmennina. Þegar sú vinna lauk komumst við að því að um sé að ræða tvo örvhenta hornamenn.

Handkastið heyrði í pólskum sérfræðingi og spurði hann út í Giorgi og frammistöðu hans í Póllandi.

,,Giorgi spilaði í hægra horninu fyrir Azoty Pulawy. Hann var að spila í kringum 50 mínútur í hverjum leik í horninu. Hann var eini hægri hornamaðurinn í liðinu. Hann stóð sig vel, var ekkert frábær en skilaði sínu. Ég er ánægður fyrir hans hönd að hann skuli vera búinn að finna sér nýtt félag eftir það sem gerðist hér í Póllandi," sagði viðmælandi Handkastsins.

Því næst fór Handkastið að reyna fræðast um hinn norska Morten Boe Linder. Heyrðum við í norskum sérfræðingi sem fylgist vel með norska boltanum þar sem hann spilaði með Fjellhammer á síðustu leiktíð.

,,Morten Boe er í kringum 170 cm á hæð. Ég myndi alltaf segja að hann væri hornamaður. Hann er með góða skothendi og getur vel skotið fyrir utan en fyrst og fremst er hann hornamaður. Hann er duglegur að taka þátt í spilinu og mörg leikkerfi snerist um að hann kæmi út fyrir."

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Andri Snær Stefánsson nýráðinn þjálfari KA spilar úr þeim spilum sem hann hefur. Afar ólíklegt er þó að KA ætli að spila með tvo leikmenn á sama tíma í hægra horninu, en hver veit. Það verður tíminn að leiða í ljós.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top