Katla María ((Eyjólfur Garðarsson)
Katla María sem er nýlega gengin í raðir Holstebro í Dönsku B-deildinni eins og var greint frá fyrr í sumar var í sambandi við Handkastið og var rætt um tímann hennar á Selfossi og komandi tímabil í Danmörku. Hvernig gerir þú upp tímann þinn á Selfossi síðustu tímabil? ,,Tíminn hjá Selfossi var verulega góður. Þar voru allar mínar bestu vinkonur og mér fannst ótrúlega gaman. Frábærir þjálfarar og umgjörð, án efa ein sú besta á Íslandi. Ég upplifði þó líka vonbrigði hér og þar á þessum tíma, sérstaklega þegar við féllum úr Olis deildinni og seinasta tímabil var virkilega krefjandi vegna meiðsla sem ég lenti í og hversu lengi ég var að finna mitt gamla leikform aftur." Hvernig líst þér á komandi tímabil ,,Mér líst mjög vel á tímabilið. Ég geri mér grein fyrir að þetta verður krefjandi, en ég er hrikalega spennt. Deildin er sterk og handboltaáhuginn í Danmörku gríðarlegur. Fyrst og fremst finnst mér gaman að fá tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og taka skref fram á við í ferlinum. Markmiðið mitt er að þróast sem leikmaður, leggja mitt af mörkum fyrir liðið og njóta þess að spila í þessu umhverfi." Hverjir heldur þú að verði þínar helstu áskoranir ,,Að flytja í nýtt land og byrja í nýju liði er alltaf áskorun, sérstaklega að læra nýtt tungumál og vera sú eina í hópnum sem talar ekki dönsku. Ég lít þó á þetta sem tækifæri til að vaxa í nýju umhverfi, meiri samkeppni og nýjar kröfur." Eru mikið viðbrigði? ,,Já, það eru vissulega viðbrigði. Æfingarnar hér eru öðruvísi uppbyggðar og meiri samkeppni, þar sem hópurinn er stærri og allir leikmenn mjög góðir í handbolta. Fyrir mig snýst þetta um að aðlagast nýjum aðstæðum og nýju tempói. Það er bæði krefjandi og spennandi og gefur mér tækifæri til að þróast enn frekar sem leikmaður."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.