Sigurvegarar KG Sendibílamótsins. ((KA/Þór)
ÍBV bar sigur úr bítum á KG Sendibílamótinu sem fór fram á Akureyri um helgina en fjögur kvennalið tóku þátt í mótinu. ÍBV vann alla sína leiki á mótinu en auk ÍBV tóku KA/Þór, Stjarnan og Grótta þátt í mótinu. Handkastið sló á þráðinn til Vestmannaeyjum og heyrði í nýráðnum þjálfara kvennaliðs ÍBV, Magnúsi Stefánssyni og spurði hann út í spilamennsku liðsins á mótinu, stöðuna á liðinu og framhaldið hjá liðinu síðustu vikurnar áður en flautað verður til leiks í Olís-deild kvenna. ,,Leikirnir á KG Sendibílamótinu gengu mjög vel. Það var þessi klassíski tröppugangur hjá liðinu. Það voru ákveðin atriði sem við vildum sjá hjá liðinu í hverjum leik fyrir sig og við fengum góð svör við þeim. Þetta eru leikirnir til að prufa ýmislegt og við gerðum það og vorum ánægð með útkomuna," sagði Magnús sem var ánægðastur með stígandann í liðinu í hverjum leik. ,,Þær eru að spila sig saman, prófa sig áfram og þær eru að hafa hrikalega gaman að þessu." ÍBV hefur fengið til sín þrjá leikmenn í sumar. Sandra Erlingsdóttir og Amelía Dís Einarsdóttir tvær uppaldnar Eyjastelpur eru komnar heim eftir veru sína erlendis og þá hefur liðið fengið norska markvörðinn, Amalie Frøland í markið. Magnús er ánægður með þær hingað til. ,,Þær eru að koma mjög vel inn hjá okkur. Sandra er skapandi leikmaður og spilar liðsfélaga sína mjög vel uppi. Hún býr yfir mikilli handboltagreind sem nýtist bæði henni og liðsfélögum hennar vel, svo er hún frábær liðsfélagi. Amalie Frøland er frábær markmaður, við erum gríðarlega heppin að ná leikmann í þessum klassa. Hún er vel þjálfuð, hefur mikinn metnað sem smitar út frá sér. Þá er Amelía komin aftur heim, hún nýtir færin sín vel og kemur einnig inn í hópinn með sína reynslu." Magnús segir stöðuna á hópnum um þessar mundir vera góða og leikmenn óðum að komast í gott form. Framundan eru margir æfingaleikir. ,,Æfingaálagið er mikið en þær kvarta aldrei. Þær eru ótrúlega miklir íþróttamenn og gera bara það sem þeim er sagt að gera. Framundan er Ragnarsmótið, fínstilling á nokkrum þáttum og svo bara áfram gakk," sagði Magnús Stefánsson að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.