Brynjar Vignir Sigurjónsson (Raggi Óla)
Segja mætti að HK sé í töluverðu veseni um þessar mundir en tveir af þremur markmönnum liðsins eru meiddir og verða frá næstu vikur og mánuði tæplega þremur vikum fyrir fyrsta leik í Olís-deildinni. Brynjar Vignir Sigurjónsson sem gekk í raðir HK frá Aftureldingu fyrr í sumar varð fyrir þvi óláni að ristarbrotna um miðjan seinni hálfleik í æfingaleik liðsins gegn Stjörnunni síðastliðinn fimmtudag. Miðað við fyrstu skoðun er gert ráð fyrir að Brynjar Vignir verði frá næstu vikur og missi af upphafi tímabilsins í Olís-deildinni. Í samtali við Handkastið staðfesti Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari liðsins að Jovan Kukobat væri einnig á meiðsalistanum og yrði ekki leikfær fyrr en eftir áramót. ,,Jovan Kukobat fór í aðgerð í sumar og gert er ráð fyrir að hann verði allt undir hálft ár að jafna sig eftir þá aðgerð," sagði Halldór Jóhann. Nú stendur HK uppi með einungis einn markmann, Róbert Örn Karlsson sem varði mark HK í fyrra ásamt Jovani Kukobat. Gera má ráð fyrir því að HK-ingar sækji sér markmann þó ekki nema það væri tímabundið á meðan tveir markmenn liðsins eru á meiðslalistanum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.