Fram og Stjarnan mætast í kvöld. ((Kristinn Steinn Traustason)
Fram og Stjarnan mætast í Meistarakeppni HSÍ karla í kvöld í Úlfarsárdalnum en leikurinn hefst klukkan 19:00. Í nýjasta þætti Handkastsins var aðeins snert á þeim leik og spáð í spilin fyrir svokallaðan opnunarleik tímabilsins. Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Handkastsins hér. ,,Maður hefur lítið séð og heyrt af Frömurum í sumar. Ég held að Stjarnan sé komið aðeins lengra og á leið í forkeppni Evrópudeildarinnar í næstu viku. Þeir hafa spilað fleiri leiki og ættu að vera komnir örlítið lengra í sínum undirbúningi," sagði Einar Ingi Hrafnsson sem var gestur þáttarins. ,,Ég á frekar von á því að Stjarnan vinni leikinn (í kvöld). Fram eiga eitthvað í land til að ná því leveli sem þeir voru á, í fyrra. Það mun koma hægt og rólega og þeir verða líklega alltaf sterkari og sterkari," bætti Einar Ingi við. Framarar hafa misst lykilmenn erlendis í atvinnumennsku í sumar og þá ríkir óvissa með þátttöku fyrirliða liðsins, Magnúsar Öders Einarssonar sem er samningslaus. ,,Það hafa verið mikið um skakkaföll hjá Frömurum í sumar og Dánjal Ragnarsson heillaði mig ekki hjá ÍBV þegar hann var þar. Það er spurning hvað hann hefur gert á þessum tveimur árum í Færeyjum," sagði Davíð Már Kristinsson sem er spenntur fyrir því að sjá endurkomu Torfa Geirs Halldórssonar í handboltann aftur en Torfi Geir hætti í handbolta eftir 4.flokk en er kominn aftur. ,,Það verður síðan gaman að sjá ungan strák hjá Fram, Torfa Geir Halldórsson sem er mættur aftur í handbolta. Þetta var einn allra efnilegasti leikmaður landsins fyrir fimm árum." Leikur Fram og Stjörnunnar hefst klukkan 19:30 og fer fram í Lambhagahöllinni. Ef við gerumst svo djarfir að skoða þá Cool stuðla sem í boði eru fyrir leikinn þá má gera ráð fyrir jöfnum leik því bæði lið eru með 2.10 í stuðul fyrir sigur en stuðullinn fyrir jafntefli er 8.50.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.