Bjarni Fritzson (Sævar Jónsson)
Samkvæmt heimildum Handkastsins hafa ÍR-ingar samið við ungan og efnilegan örvhentan leikmann sem uppalinn er í Val og hefur leikið með gríðarlega efnilegu 2008 árgang Vals og Íslands. Um er að ræða hinn örvhenta Örn Kol Kjartansson sem leikur sem hægri hornamaður í 2008 landsliði Íslands sem vann til gullverðlauna á Ólympíuhátíð æskunnar í Norður-Makedóníu fyrr í sumar en hann hefur verið hluti af gríðarlega sterkum 2008 árgangi Vals en hvorki fleiri né færri en sex Valsarar voru í lokahópi U17 ára landsliðsins í sumar. Örn Kolur hefur sterkar tengingar til ÍR því bróðir hans, Úlfur Gunnar Kjartansson lék lengi vel í ÍR og hefur verið yngri flokka þjálfari hjá félaginu síðustu ár. Það verður áhugavert að sjá hvort Örn Kolur fái tækifæri í gríðarlega ungu og efnilegu liði ÍR sem hélt sér uppi í Olís-deildinni á síðustu leiktíð sem nýliðar. ÍR mætir nýliðum Þórs í 1.umferð Olís-deildarinnar fyrir norðan, föstudaginn 5.september.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.