Einar Jónsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Einar Jónsson þjálfari Fram var nokkuð sáttur í leikslok þrátt fyrir 29-28 tap gegn Stjörnunni í kvöld. „Þetta var frábær leikur, margt virkilega jákvætt en Stjarnan voru heilt yfir betri aðilinn í kvöld og voru leikstjórar í þessum leikhúsi fáranleikans og stjórnuðu leiknum og trúðasýningunni meira og minna allan leikinn.“ Fram hafði tækifæri til að jafna leikinn en Marel Baldvinssyni tókst ekki að skora og setja leikinn í vítakeppni „Ég er sáttur með mína menn, við erum að spila á móti einu besta liði deildinnar og náum að hanga í þeim allan leikinn. Varnarleikurinn var góður en við vorum að fara með full mikið af dauðafærum og markvarslan hefði mátt vera betri í seinni hálfleik.“ Athygli vakti að enginn eftirlistmaður var á leiknum frá HSÍ. „Mér fannst umgjörðin hjá HSÍ í þessum leik frábær og eftirlitsdómarinn var sérstaklega flottur“ sagði Einar. Fín mæting var á leikinn frá áhorfendum og vonar Einar að þetta muni setja tóninn fyrir veturinn hvað varðar mætingu og fjör á pöllunum. „Við eigum fullt inni og munum verða betri þegar líður á veturinn.“
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.