FramFram ((Kristinn Steinn Traustason)
Tímabilið í íslenska handboltanum hefst formlega í kvöld í Úlfarsárdalnum þegar Íslands- og bikarmeistarar Fram taka á móti silfurliði Powerade-bikarsins frá síðustu leiktíð, Stjörnunni í Meistarakeppni HSÍ. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu í Handboltapassanum. Einhverjar breytingar hafa orðið á báðum liðum í sumar. Framarar hafa misst mikilvæga leikmenn í atvinnumennsku á meðan minni spámenn hjá Stjörnunni hafa farið í Grill66-deildina eða lagt handbolta skóna á hilluna í bili í það minnsta. Bæði lið hafa sótt leikmenn út fyrir landsteinana á láni. Dánjal Ragnarsson hefur gengið í raðir Fram á láni frá Neistanum í Færeyjum og þá hefur Rea Barnabas gengið í raðir Stjörnunnar frá Pick Szeged í Ungverjalandi á láni. Ef við gerumst svo djarfir að skoða þá Cool stuðla sem í boði eru fyrir leikinn þá má gera ráð fyrir jöfnum leik því bæði lið eru með 2.10 í stuðul fyrir sigur en stuðullinn fyrir jafntefli er 8.50.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.