Sunna Jónsdóttir (Sigurður Ástgeirsson)
Fyrirliði ÍBV síðustu tímabil er flutt frá Vestmannaeyjum í höfuðborgina og er samningslaus eftir að samningur hennar við ÍBV rann út í sumar. Sunna hefur verið orðuð við Fram í allt sumar og allt bendir til þess að hún taki slaginn með liðinu í vetur. Haraldur Þorvarðarson sem tók við kvennaliði Fram í sumar af Rakel Dögg Bragadóttur sagði í samtali við Handkastið vonast til þess að hún verði með Fram liðinu í vetur. ,,Hún kemur vonandi hægt og rólega inn í þetta hjá okkur," sagði Haraldur. ,,Hversu stórt hlutverkið verður er ekki víst en það er ekkert leyndarmál að við í Fram og Sunna erum í góðum samskiptum og höfum verið í nokkurn tíma," sagði Haraldur Þorvarðarson í samtali við Handkastið. Kvennalið Fram hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá síðustu leiktíð og það er nokkuð ljóst að með komu Sunnu í liðið kemur mikla reynsla. Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6.september og leiki Sunna í 1.umferðinni með Fram þá mætir hún sínu gamla félagi, ÍBV í Vestmannaeyjum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.