HaukarHaukar (Kristinn Steinn Traustason)
Haukar unnu stórsigur á Þór í kvöld í öðrum leik sínum í Hafnarfjarðarmótinu, eftir leikinn er ljóst að liðið hefur sigrað mótið eftir að hafa unnið sigur á nágrönnum sínum í FH á miðvikudagskvöldið. Það tók Hauka ekki nema rúmlega 15 mínútur að ná 5 marka forystu og þrátt fyrir að allt geti gerst í handbolta að þá náðu Þórsarar aldrei að brúa bilið og Haukar gerðu ekki annað en að auka forskotið fram að hálfleiknum. Staðan 18-9 í hálfleik fyrir Hafnfirðinga sem líta út fyrir að koma vel stemmdir og í hörkustandi inn í tímabilið undir stjórn nýs þjálfara í Gunnari Magnússyni. Það var svipað upp á teningnum í seinni hálfleik og eftir 15 mínútna leik í seinni hálfleiknum var munurinn orðinn 10 mörk og Haukarnir farnir að nýta hópinn og leyfa öllum að spila. Haukar unnu að lokum nokkuð þægilegan sigur, 35-20. Markahæstu menn Hauka voru þeir Freyr Aronsson og Össur Haraldsson með 6 mörk hvor, Birkir Snær Steinsson fylgdi þeim á eftir með 5 mörk og Adam Haukur Baumruk og Jón Ómar Gíslason skoruðu 3 mörk hvor, aðrir minna. Miðað við tölfræði HBstatz varði Magnús Gunnar Karlsson 9 skot og Ari Dignus Maríuson 3 skot. Hjá gestunum frá Akureyri voru þeir Oddur Grétarsson og Aron Hólm Kristjánsson með 5 mörk hvor en næstu menn voru með 2 mörk eða minna. Miðað við tölfræði HBstatz vantar inn markvörslu norðanmanna. Síðasti leikur mótsins fer fram á morgun, laugardag í hádeginu þegar Þórsarar taka á móti FH-ingum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.