Andri Snær Stefánsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
KA vann Þór tvívegis um síðustu helgi í KG Sendibílamótinu sem fram fór á Akureyri. Mikil eftirvænting er fyrir tímabilinu fyrir norðan en langt er síðan bæði lið KA og Þór mættust í efstu deild. Handkastið sló á þráðinn til Andra Snæs Stefánssonar þjálfara KA og spurði hann aðeins út í leikina gegn Þór og framhaldið á undirbúningstímabilinu hjá liðinu áður en liðið mætir til leiks í Olís-deildina en liðið mætir Selfossi í 1.umferð deildarinnar laugardaginn 6.september. ,,Leikirnir voru ágætir og mikilvægt að ná að spila okkur saman. Fyrri leikurinn var á köflum þrælgóður þar sem vörnin gekk vel og sóknarleikurinn sömuleiðis. Seinni leikurinn var hinsvegar ekki eins góður og við gerðum okkur erfitt fyrir í þokkabót að vera með slaka skotnýtingu," sagði Andri Snær sem segir það þó eðlilegt á þessum tímapunkti undirbúningstímabilsins. ,,Það er eðlilegt að þetta sé kaflaskipt á undirbúningstímabilinu á meðan við erum að finna hvað hentar okkur. Bjarni Ófeigur og Magnús Dagur eru að koma úr löngum meiðslum og það mun taka smá tíma að koma þeim í topp stand." KA hefur sótt tvo erlenda hægri hornamenn sem eiga að fylla skarð Ott Varik og Einars Rafns Eiðssonar sem verður frá vegna meiðsla í upphafi tímabils. ,,Erlendu leikmennirnir eru búnir að koma flottir inn í okkar lið og eru sterk viðbót. Góðir handboltamenn og tilbúnir að gefa af sér í liðið, þeir eiga eftir að koma betur inn í okkar leik á næstu vikum." Andri Snær er ánægður með undirbúningstímabilið hingað til.
,,Við vitum hvert við stefnum og hvað við ætlum okkur. Við förum suður um helgina í tvo æfingaleiki við Aftureldingu og Gróttu, það eru okkar síðustu æfingaleikir áður en Íslandsmótið hefst," sagði Andri Snær að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.