Svíþjóð (Flaviu Buboi / NurPhoto via AFP)
Hin sænska, Johanna Östblom sem er aðeins 22 ára gömul, hefur ákveðið að leggja handboltaskóna á hilluna. Það er nú kannski ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að hún lék nýverið sinn fyrsta landsleik fyrir sænska landsliðið auk þess að hafa orðið bikarmeistari heimafyrir á síðustu leiktíð. Johanna Östblom varð á síðustu leiktíð sænskur bikarmeistari með félagsliði sínu H65 Höör. Þrátt fyrir góðan árangur á handboltavellinum hefur Östblom ákveðið að leggja skóna á hilluna. Ástæðuna segir hún vera þá að hún vilji einbeita sér að námi og lífi utan íþróttarinnar. Sú sænska lék sinn fyrsta landsleik fyrir Svíþjóð í apríl á þessu ári er Svíþjóð lék gegn Kósóvó í undankeppni HM. Þar skoraði hún sex mörk.
,,Ég vil prófa líf án handbolta, með tækifæri til að ferðast, einbeita mér að námi og hafa fasta vinnu,“ útskýrði hún við blaðið Bohusläningen. Þótt ákvörðunin hafi komið sumum á óvart hefur hún fengið mikinn stuðning bæði frá fjölskyldu og félagi.
Í framtíðinni mun Östblom einbeita sér að meistaragráðu í markaðsfræði.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.