Lena Margrét Valdimarsdóttir (Kristinn Steinn Traustason)
Hin örvhenta skytta Fram síðustu tímabil, Lena Margrét Valdimarsdóttir færði sig um set í sumar og gekk í raðir sænsku meistarana í Skara. Framundan er því stórt tímabil bæði hjá Lenu og liðsfélögum hennar í Skara en liðið kom öllum á óvart með því að vinna bæði sænsku deildina og úrslitakeppnina í kjölfarið. Handkastið sló á þráðinn til Svíþjóðar og heyrði í Lenu sem segist finna fyrir jákvæðu andrúmslofti í kringum liðið og hún segit finna fyrir því að liðið hafi unnið tvöfalt á síðustu leiktíð. ,,Ég finn að leikmenn eru spenntir fyrir komandi tímabili. Það er mjög gott að vera í svona umhverfi og ég er spennt að leggja mitt af mörkum til þess að hjálpa liðinu þetta tímabil," sagði Lena Margrét sem hefur skoðað þann möguleika áður að fara erlendis og spila. ,,Fyrir tveimur árum þá fór ég á æfingar í Þýskalandi en það varð ekkert úr því, ég hafði ekki hugsað út í það aftur að fara út fyrr en þetta tækifæri kom upp," sagði Lena en þjálfari Skara hafði samband við hana af fyrrabragði og sýndi henni mikinn áhuga. ,,Þetta tækifæri fannst mér strax spennandi þar sem að það var mjög óvænt og ég var að klára nám og tilbúin í smá breytingar. Í framhaldi hafði ég samband við Aldísi sem hefur verið í liðinu í þrjú ár og hún hafði bara jákvæða hluti að segja um liðið og þar á eftir hófust samningsviðræður," sagði Lena en liðsfélagi hennar hjá Skara er Aldís Ásta Heimisdóttir. Lena viðurkennir að það hafi hjálpað mikið fyrstu vikurnar að hafa Íslending í liðinu. ,,Hún hefur verið mér innan handar þessar fyrstu vikur og hjálpar mér að skilja sem mest af því sem er í gangi á æfingum." ,,Fyrstu vikurnar hafa verið mjög viðburðarríkar. Maður er að kynnast fullt af nýju fólki og nýju tungumáli svo þetta hefur verið krefjandi en að sama skapi mjög skemmtilegt. Æfingarnar hafa verið mjög góðar og við höfum nú þegar tekið þátt í einu æfingamóti og svo er bikarkeppnin að byrja núna," sagði Lena sem er í 50% starfi hjá íslensku fyrirtæki sem kemur sér vel þar sem hún getur unnið að heiman og þá segir hún að það stytti henni einnig stundir á daginn. Hún er spennt fyrir komandi tímabili með nýju liði. ,,Mér líst mjög vel á komandi tímabil, ég er að koma inn í mjög sterkt lið með góða liðsheild og mikinn vilja fyrir því að gera vel þetta tímabil. Liðið er með góða þjálfara og reynslu mikla leikmenn og ég er spennt að læra af þeim og halda áfram að þróa minn leik og vonandi samhliða því vinna titla." ,,Við ætlum að keppast um þá titla sem eru í boði í Svíþjóð og svo verður einnig spennandi að taka þátt í evrópukeppninni. " Lena gerði tveggja ára samning við Skara og segist ætla taka eitt tímabil í einu og sjá svo hvað hún gerir þegar samningur hennar við félagið rennur út. ,,Mitt hlutverk verður að ég held meira tengt sóknarleik þar sem liðið var ekki með örvhenta skyttu á síðasta tímabili og vonast ég til að koma með fleiri möguleika inn í sóknarleikinn. Til að byrja með held ég að mínar stærstu áskoranir verði að ná betri tökum á tungumálinu og að koma mér almennilega í takt við liðið og þann leikstíl sem þjálfarinn vill spila." En finnur hún fyrir miklum viðbrigðum að æfa með Skara eða með Fram? ,,Það eru einhver viðbrigði, æfingarnar eru lengri og fleiri og eru byggðar aðeins öðruvísi upp. Hér er hópurinn einnig aðeins jafnari þar sem það er sterk samkeppni í öllum stöðum," sagði Lena Margrét. Að lokum báðum við Lenu Margréti að gera upp tímann sinn hjá Fram síðustu tímabil. ,,Síðustu tímabil hjá Fram hafa verið mjög lærdómsrík og gefandi. Þar vorum við með afar reynslumikla þjálfara og ég lærði ýmislegt af þeim. Að mínu mati var stígandi í liðinu síðustu tvö ár og leitt að við náðum ekki að landa titli á þessum tíma. Þar að auki er ég afar þakklát fyrir að hafa verið með geggjaða liðsfélaga sem hjálpuðu mér sífellt að þróast sem leikmaður og ég bíð spennt eftir því að fylgjast með þeim áfram þetta tímabil," sagði Lena Margrét Valdimarsson leikmaður Skara að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.