Formaður dómaranefndar segir HSÍ vera að koma til móts við félögin
Sævar Jónasson)

Úr umræddum leik. (Sævar Jónasson)

Mikið hefur verið rætt og ritað um leik Fram og Stjörnunnar í Meistarakeppni HSÍ sem fram fór á fimmtudagskvöldið. Stjarnan fór með sigur úr bítum 28-27 en það hefur þó verið algjört aukaatriði í umræðunni um leikinn heldur ummæli Einars Jónarssonar þjálfara Fram eftir leik.

Eins og Handkastið greindi frá í gær hafa ummæli Einars ratað á borð aganefndar HSÍ og verður tekið fyrir eftir helgi. Í viðtali Einars eftir leikinn skýtur hann föstum skotum að umgjörð leiks og furðar sig á því að enginn eftirlitsmaður HSÍ hafi verið á leiknum.

Reynir Stefánsson formaður dómaranefndar sagði í samtali við Handbolta.is í gær að ekkert óeðlilegt væri við það að enginn eftirlitsmaður HSÍ hafi verið á leiknum.

„Það hefur ekki alltaf verið eftirlitsmaður á Meistara meistara og það er ranghugmynd að eftirlit sé á öllum leikjum. Til dæmis eru eftirlitsmenn á um 80% leikja í Olís-deild karla, ekki þeim öllum. Í þessu tilviki tók HSÍ meðvitaða og upplýsta ákvörðun um að setja ekki eftirlitsmann á leikinn og er því ekki um neitt frávik frá venjubundnu verklagi að ræða,“ sagði Reynir við Handbolta.is.

Þessi ummæli fannst Handkastið athyglisverð og fór því að rýna í gögnin og þar kom í ljós að Reynir Stefánsson sjálfur var eftirlitsmaður leiks FH og Vals í Meistarakeppni HSÍ á síðustu leiktíð. Þá sýna gögnin að eftirlitsmaður hefur verið í Meistarakeppni HSÍ í karla flokki síðustu þrjú ár.

Handkastið hafði samband við Reyni Stefánsson í gærkvöldi og óskaði eftir svörum við þeirri staðreynd að eftirlitsmenn hafi verið á tilteknum leik þrjú síðustu ár.

Reynir sagðist ekki muna til þess að hann hafi verið eftirlitsmaður á leik FH og Val á síðustu leiktíð og sagðist ekki sjálfur vera með tölfræðina á hreinu yfir það hvenær eftirlitsmenn hafi verið á leikjum í Meistarakeppni HSÍ.

Hann benti þó á að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin fyrir þennan leik að vera ekki með eftirlitsmann á hvorki karla né kvennaleik Meistarakeppni HSÍ í ár.

,,HSÍ er að koma til móts við félögin sem hafa kallað eftir lækkun kostnaðar," sagði Reynir í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top