Brynjar Óli Kristjánsson (Þorgils Garðar Gunnþórsson)
Brynjar Óli Kristjánsson leikmaður Fjölnis ætlar að taka slaginn með liðinu í Grill66-deildinni á komandi tímabili. Þetta staðfesti Guðmundur Rúnar Guðmundsson þjálfari Fjölnis í samtali við Handkastið. Eftir fjarveru úr boltanum tók Brynjar Óli fram skóna fyrir síðustu leiktíð og lék með Fjölni í Olís-deildinni en Fjölnisliðið endaði í neðsta sæti deildarinnar sem nýliðar á síðustu leiktíð þrátt fyrir hetjulega baráttu og mörg óvænt stig og sigra. Brynjar Óli hefur mikla reynslu enda búinn að vera lengi í boltanum og það eru gríðarlega jákvæðar fréttir fyrir Grafarvogsliðið að hann ætli að taka slaginn í baráttunni sem framundan er í Grill66-deildinni í vetur. Hann lék 20 leiki með liðinu á síðustu leiktíð og skoraði 23 mörk í Olís-deildinni. Fyrsti leikur Fjölnis á komandi tímabili verður gegn Selfossi 2 laugardaginn 6.september klukkan 16:00.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.