Vilius Rasimas ((PETER LAZAR / AFP)
Í nýjasta þætti Handkastsins var framtíð Vilius Rasimas markmanns Hauka rædd en samkvæmt heimildum Kristins Björgúlfssonar eins af gestum Handkastsins er Vilius Rasimas á leið frá Haukum. Vilius gekk í raðir Hauka fyrir síðustu leiktíð frá Selfossi en hann gekkst undir aðgerð fyrr í sumar og er enn í endurhæfingu eftir þá aðgerð. Hann hefur því ekkert æft né leikið með Haukum á undirbúningstímabilinu. Kristinn Björgúlfsson fór á leik Hauka og Þórs í Hafnarfjarðarmótinu á föstudagskvöldið og þar segist hann hafa tekið eftir því að Rasimas var hvergi sjáanlegur. ,,Sagan segir að Rasimas sé á leið frá Haukum og að hann sé á leið heim til Litháen," sagði Kristinn og hélt áfram: ,,Hann er meiddur og það er spurning hvort hann sé búinn eða hvort hann komist í gang. Ég velti fyrir mér hvort það sé samkomulag um að hann fari," sagði Kristinn. Ari Dignus og Magús Gunnar Karlsson hafa staðið vaktina í marki Hauka á undirbúningstímabilinu en Aron Rafn Eðvarðsson lagði skóna á hilluna í sumar eftir farsælan feril hér heima og erlendis. ,,Ég hafði heyrt að Aron Rafn væri líklegur til að taka fram skóna á meðan Rasimas væri meiddur," bætti Styrmir við.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.