Vilius Rasimas ((PETER LAZAR / AFP)
Í nýjasta þætti Handkastsins var framtíð Vilius Rasimas markmanns Hauka rædd en samkvæmt heimildum Kristins Björgúlfssonar eins af gestum Handkastsins er Vilius Rasimas á leið frá Haukum. Vilius gekk í raðir Hauka fyrir síðustu leiktíð frá Selfossi en hann gekkst undir aðgerð fyrr í sumar og er enn í endurhæfingu eftir þá aðgerð. Hann hefur því ekkert æft né leikið með Haukum á undirbúningstímabilinu. Handkastið hafði samband við Gunnar Magnússon þjálfara Hauka og spurði hann út í þennan orðróm. ,,Staðan er sú að hann fór í aðgerð fyrir sumarið og er meiddur. Útlitið er svart og óvíst með þátttöku hans á næstu vikum og mánuðum," sagði Gunnar í samtali við Handkastið. En hefur sú umræða verið tekin innan Hauka að Rasimas gæti yfirgefið félagið? ,,Það hefur verið rætt og hann gæti mögulega farið heim til Litháen. Þetta snýst líka svolítið um hvað hann treystir sér til. Hann er meiddur á báðum hnjám og er verkjaður. Það virðist eitthvað nýtt hafa komið upp eftir aðgerðina svo það er algjörlega óljóst um þátttöku hans í vetur. Framhaldið mun skýrast á næstu dögum," sagði Gunnar að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.