Aron Rafn Eðvarðsson - Össur Haraldsson ((Eyjólfur Garðarsson)
Óvissa ríkir um þátttöku litháenska markvarðarins, Vilius Rasimas leikmanns Hauka fyrir komandi tímabil. Í nýjasta þætti Handkastsins var framtíð Vilius Rasimas markmanns Hauka rædd og þar hélt Kristinn Björgúlfsson því fram að Vilius yrði ekki markvörður Hauka á tímabilinu. Gunnar Magnússon þjálfari Hauka staðfesti við Handkastið í gær að Vilius væri að glíma við meiðsli og óljóst væri hvenær og hvort hann myndi leika fyrir Hauka í vetur. Þar sagði Gunnar til að mynda að viðræður við Vilius um framtíð hans hjá félaginu hafi átt sér stað. Fyrir hjá Haukum eru tveir ungir og efnilegir markmenn, Magnús Gunnar Karlsson sem lék á láni hjá Gróttu frá Haukum á síðustu leiktíð og Ari Dignus sem lék með Haukum 2 í Grill66-deildinni á síðustu leiktíð og hefur verið viðloðandi unglingalandslið Íslands. En hvað með Aron Rafn Eðvarðsson sem lagði skóna á hilluna? Mun brotthvarf Vilius Rasimas leiða til þess að Aron taki eitt ár í viðbót? ,,Þetta er engin draumastaða fyrir okkur. Í draumaheimi hefðu við viljum vita stöðuna á Rasimas í upphafi sumars en þó fór hann í aðgerð og við héldum að hann yrði leikfær eftir hana." ,,Markaðurinn hér heima er erfiður og nánast enginn. Aron Rafn er klárlega nafn sem hefur komið upp hjá okkur fari svo að Rasimas spili ekki með okkur í vetur," sagði Gunnar Magnússon í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.