Úlfar Páll Monsi ((Baldur Þorgilsson)
Vinstri hornamaðurinn Úlfar Páll Monsi Þórðarson hélt út í atvinnumennsku og gekk til liðs við Norður Makedóníska félagið HC Alkaloid eftir góð tímabil með Valsmönnum. „Tíminn hjá Val var frábær og strákarnir líka. Það voru ákveðin vonbrigði að hafa ekki unnið titil í fyrra en ég skil sáttur við félagið með einn Evrópumeistaratitil og bikartitil.“ Monsi segir það hafi alltaf verið draumur hjá sér að fara í atvinnumennsku einn daginn en það hafi aðallega stoppað á honum sjálfum að gefa sig að fullu í handboltann. „Það var ekki fyrr en á síðasta tímabili að ég fann að mig langaði þetta virkilega og setti fullan fókus á handboltann." HC Alkaloid er eitt sterkasta lið í Norður Makedóníu og spilar árlega í Evrópukeppnunum og segir Monsi að þetta hafi verið auðveld ákvörðun þegar tækifærið kom upp. „Það voru einhverjar þreifingar með önnur lið en fór aldrei lengra og þegar Kiri Lazarov hafði samband og seldi mér verkefnið þá kom aldrei neitt annað til greina en að fara hingað.“ Eins og fram kom hér að ofan þá er liðið eitt það allra sterkasta í deildinni heimafyrir og er Monsi spenntur að hefja tímabilið með þeim. „Ég er mjög spenntur að byrja tímabilið, undirbúningurinn hefur gengið vel en þetta hefur verið mjög krefjandi að komast inn í allt kringum liðið. Æfingarnar hérna úti eru talsvert lengri en heima á Íslandi, mikil gæði og ákefð.“ Monsi segir að hann eigi sér draum að spila fyrir eitt af bestu liðum heims einn daginn og hafi þessi vistarskipti erlendis bara ýtt undir þann draum „Núna tekur maður bara einn dag í einu og reynir að koma sér almennilega inn í hlutina, ég er að renna pínu blint í sjóinn en það hentar mér ágætlega.“
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.