Yrði stórkostlegt fyrir ÍR ef Sólveig Lára ætlar að spila
Egill Bjarni Friðiónsson)

Sólveig Lára Kjærnested (Egill Bjarni Friðiónsson)

Í nýjasta þætti Handkastsins var möguleg endurkoma Sólveigar Láru Kjærnested í lið ÍR fyrir veturinn í Olís-deildinni rædd en Sólveig Lára hefur gefið það út að hún íhugi að spila með liðinu í það minnsta í upphafi tímabils vegna fjarveru leikmanna sem eru meiddar.

Sólveig Lára þjálfaði lið ÍR síðustu ár en hætti með liðið í sumar og Grétar Áki Andersen tók við liðinu en hann var aðstoðarþjálfari liðsins á síðustu leiktíð.

,,Þetta er heldur betur áhugavert. Hún spilaði í átján ár í Stjörnunni að undanskildu einu ári þar sem hún spilaði erlendis en hún er uppalin í ÍR. Hefur þjálfað þetta lið undanfarin ár, reif þetta lið úr Grill66-deildinni og upp í Olís-deildina og hefur gert þetta að stabílu liði. Hætti með liðið í sumar en íhugar nú að spila með liðinu allavegana til að byrja með vegna meiðsla í liðinu," sagði Arnar Daði Arnarsson í Handkastinu.

Kristinn Björgúlfsson þekkir Sólveigu Láru vel úr Breiðholtinu en hann var gestur Handkastsins í síðasta þætti.

,,Það yrði stórkostlegt fyrir ÍR ef Solla (Sólveig Lára) ætlar að spila með þeim. Þegar hún var með liðinu í umspilinu fyrir þremur árum og sleit hásinina þá sýndi hún að hún hefur ennþá töfra í báðum höndum og fótum og var mjög flott. Ef hún verður þessi reynslupési sem á að draga liðið áfram eða róa leikinn þegar að því kemur þá held ég að það gæti orðið mikilvægt fyrir liðið í vetur. Án þess að hún verði einhver lykilmaður," sagði Kiddi og bætti við:

,,Það gæti orðið rosalega gott fyrir ÍR-liðið ef hún ætlar að spila. Miðað við það sem maður las þá er hún að íhuga þetta en maður sér hana ekki fyrir sér vera æfa fimm sinnum í viku og byrja leikina heldur verður með. Ef hún verður með þá myndi ég segja að það væri eins og tveir nýir leikmenn fyrir ÍR," sagði Kiddi bjargvættur að lokum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top