Láru Helgi Ólafsson (Skapti Hallgrímsson / Akureyri.net)
Markvörðurinn, Lárus Helgi Ólafsson staðfesti í samtali við Handkastið að hann sé að fara æfa með HK liðinu í kvöld en segir framhaldið óvíst. Handkastið greindi frá því fyrr í dag að samkvæmt heimildum væri hann að fara æfa með HK liðinu í vikunni. Eins og áður hefur verið greint frá eru HK í miklum markmannsvandræðum fyrir tímabilið í Olís-deild karla sem hefst í vikunni. Tveir af þremur markmönnum liðsins eru að glíma við langvarandi meiðsli og verða frá keppni næstu vikurnar. Bæði Brynjar Vignir Sigurjónsson og Jovan Kukobat missi af upphafi tímabilsins með HK. ,,Ég er á báðum áttum en sjáum til hvernig þetta þróast. Það kítlar að sjálfsögðu að taka slaginn og hjálpa HK-liðinu en við verðum að sjá hvað gerist," sagði Lárus Helgi sem lagði skóna á hilluna eftir tímabilið 2023/2024 eftir að hafa leikið með Fram frá árinu 2018. Lárus Helgi og Halldór Jóhann Sigfússon þekkjast vel. Lárus lék undir stjórn Halldórs hjá Fram tímabilið 2019/2020 þar sem Lárus var valinn besti leikmaður Fram liðsins það tímabil. Fyrsti leikur HK í Olís-deildinni er í Vestmannaeyjum næstkomandi föstudagskvöld gegn ÍBV.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.