Krickau tekinn við sem þjálfari Fuchse Berlín
Fuchse Berlín)

Nikolej Krickau - Bob Hanning (Fuchse Berlín)

Nikolej Krickau verður næsti þjálfari Fuchse Berlín. Það er TV 2 Sport í Danmörku sem segir frá. Samningur Krickau við Fuchse Berlín er til ársins 2028.

Mikið hefur verið fjallað um mál Jaron Siewert þjálfara Fuchse Berlín að undanförnu en í morgun skrifaði Handkastið um það að þýskir miðlar fjölluðu um að dagar Siewert sem þjálfara Fuchse yrðu ekki margir.

Þýsku meistarnir í Fuchse Berlín hafa einnig staðfest tíðindin og segja að Krickau tekið við liðinu frá og með deginum í dag. Hann verði á hliðarlínunni í stórleik þýsku deildarinnar á laugardaginn þegar Fuchse Berlín og Magdeburg mætast.

,,Nicolej Krickau tekur við sem þjálfari hjá Füchsen Berlin héðan í frá. Hann verður á hliðarlínunni þegar á laugardaginn í heimaleiknum gegn Magdeburg," segir í tilkynningu félagsins.

Á sama tíma hefur félagið tilkynnt að Bob Hanning framkvæmdastjóri félagsins og Stefan Kretzschmar hafi náð samkomulagi um að sá síðarnefndi hætti strax sem íþróttastjóri félagsins.

Krickau var þjálfari SG Flensburg á síðustu leiktíð en var látinn taka poka sinn í desember á síðasta ári. Krickau þjálfaði Mathias Gidsel besta leikmann heims og leikmann Fuchse hjá GOG á sínum tíma.

Þetta verður að teljast ein óvæntustu tíðindi í handboltaheiminum í langan tíma en Jaron Siewert gerði félagið að þýskum meisturum í fyrsta skipti í sögu félagsins á síðustu leiktíð og fór með liðið alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar.

Mikið hefur gustað í kringum félagið að undanförnu og eftir að Stefan Kretszcmar tilkynnti í vikunni að hann myndi hætta hjá félaginu næsta sumar fóru sögur að berast um að Jaron Siewert ætti ekki marga daga eftir í starfi félagsins. Þó var haldið að hann myndi stýra liðinu gegn Magdeburg um helgina en nú er það orðið staðfest að Nikolej Krickau hefur tekið við liðinu.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top