Miklar breytingar á Fram liðinu ((Kristinn Steinn Traustason)
Handboltatímabilið hér heima er farið af stað. Olís-deild karla er farin af stað og Olís-deild kvenna hefst á laugardaginn. Handkastið heldur áfram að hita upp fyrir Olís-deildirnar og hefur sent sömu sex spurningarnar á alla þjálfara deildarinnar í karla og kvenna flokki. Nú er komið að því að sjá hvað þjálfari Fram í Olís-deild kvenna Haraldur Þorvarðarson hafði segja. Ertu ánægð/ur með hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið? Við erum ánægðir með þetta. Við tókum þétt til 20. júní og byrjuðum aftur 20.júlí. Stelpurnar eru búnar að vera þrælduglegar alveg. Búnar að buffa sig upp og hlaupa eins og rostungar. Svo er að sjá hverju það skilar. Hvernig metur þú þær mannabreytingar sem hafa orðið á liðinu í sumar? Miklar mannabreytingar hjá liðinu og þá helst í leikmönnum sem fóru eða hættu. Fengum að vísu nokkrar líka þannig að það er bara létt yfir okkur. Hverjar telur þú vera helstu áskoranir þínar og liðsins í vetur? Helstu áskoranir hjá okkur þjálfurum eru náttúrulega bara að líma glænýtt Framlið saman á eins skömmum tíma og hægt er á meðan nýir leikmenn taka við keflinu og það er áskorun þeirra. Hverjar eru væntingar þínar til tímabilsins? Ég vænti þess að liðið okkar þróist og styrkist inni í mótinu og að á endanum getum við gengið sátt frá þessu tímabili. Ef þú mættir velja þér einn leikmann úr öðru liði í deildinni til að fá í þitt lið - Hver væri það og afhverju? Erfitt að segja. Segjum Mariam Eradze því þá er hún styttra frá pabba sínum og allir léttir. Hvaða lið telur þú að verði deildarmeistari í vetur? Valur
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.