Sergio Barros (Instagram)
Lið Harðar frá Ísafirði hefur fengið til sín fyrrum portúgalskan landsliðsmann fyrir átökin í Grill66-deildinni. Sergio Barros hefur skrifað undir samning við Hörð og er orðinn löglegur með liðinu fyrir fyrsta leik í deildinni sem fram fer á morgun. Hörður fer á Seltjarnarnesið og mætir þar Gróttu í 1.umferð Grill66-deildarinnar. Sergio Barros sem er fæddur árið 1992 er vinstri hornamaður sem getur einnig leyst leikstjórandastöðuna en hann hefur undanfarin ár leikið með Buzau í Rúmeníu. Barros á að baki 20 landsleiki og hefur skorað í þeim leikjum 27 mörk. Barros lék lengst af með liði Sporting eða frá árinu 2011 til 2016. Þaðan fór hann til Norður-Makedóníu og lék með Eurofarm Pelister. Þá lék hann eitt tímabil með Nilufer í Tyrklandi, Puente Genil á Spáni og síðustu fimm tímabil hefur hann leikið í Rúmeníu. Þjálfari Harðar er frá Portúgal og þekkir Sergio Barros því ágætlega.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.