Hrannar Guðmundsson (Dragomir Ovidiu)
Stjarnan tekur á móti rúmenska liðinu Baia Mare í seinni leik forkeppni Evrópudeildarinnar klukkan 13:00 á morgun í Heklu-höllinni. Jafnt er í einvíginu eftir jafntefli í fyrri leiknum í Rúmeníu um síðustu helgi 26-26. Handkastið heyrði í Hrannari nú síðdegis en lið Stjörnunnar var að ljúka við síðustu æfingu liðsins fyrir leikinn á morgun. ,,Við erum eins klárir í þennan leik og mögulegt er. Við urðum auðvitað fyrir áfalli í síðasta leik að missa Tandra og síðan er Sveinn Andri enn frá vegna meiðsla. Aðrir eru klárir í slaginn á morgun," sagði Hrannar aðspurður út í stöðuna á leikmannahópnum en Ísak Logi Einarsson og Adam Thorstensen voru ekki í leikmannahópi Stjörnunnar í deildarleiknum gegn Val á miðvikudaginn. ,,Við erum meðvitaðir um það að við erum að fara í risaleik bæði fyrir okkur, Stjörnuna og ekki síst íslenskan handbolta. Við ætlum okkur áfram í riðlakeppnina en til þess þurfum við að eiga toppleik. Það myndi síðan ekki skemma fyrir að fá góðan stuðning úr stúkunni. Það var vel mætt á leikinn okkar gegn Val á miðvikudaginn og þrátt fyrir að hafa ekki náð upp okkar leik þar þá hjálpaði stuðningurinn okkur að koma til baka undir lokin," sagði Hrannar. ,,Baia Mare eru líkamlega sterkir og öflugt lið sem hafa gert það gott í Evrópubikarnum síðustu ár. Þetta er verðugur andstæðingur sem var skemmtilegt að mæta í Rúmeníu síðustu helgi. Vonandi náum við upp sömu stemningu í okkar lið og þá getur allt gerst," sagði Hrannar að lokum. Handkastið hvetur lesendur til að fjölmenna í Heklu-höllina á morgun og styðja við íslenskan handbolta í Evrópu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.