Jón Ásgeir Eyjólfsson (Sævar Jónasson)
Valur vann Stjörnuna í opnunarleik Olís-deildarinnar á miðvikudagskvöldið með fimm mörkum 32-27. Eins og við mátti búast var hart barist í leiknum. Svo hart gekk Jón Ásgeir Eyjólfsson leikmaður Stjörnunnar til verka að hann fékk að líta rauða spjaldið frá dómurum leiksins eftir brot á Færeyingnum Bjarna í Selvindi strax í upphafi leiks. Í nýjasta þætti Handkastsins var rauða spjaldið rætt en Andri Berg Haraldsson gestur þáttarsins hefði viljað sjá appelsínugult spjald á þetta brot. Andri Berg kallar ekki allt ömmu sína. ,,Hann býður svolítið upp á þetta með því að fara í hendina á honum, appelsínugult. En þetta kostaði þaði að við fengum að sjá nýjan leikmann sem ég var gríðarlega hrifinn af, Loftur Ásmundsson. Hann er aggresívur og var með ellefu fríköst í leiknum. Ég hafði mjög gaman af honum. Þetta er strákur sem þarf aðeins að vinna betur með en hann var góður maður á mann og missti varla mann í gegnum sig," sagði Andri Berg í Handkastinu. Handkastið tók saman brotið hjá Jóni Ásgeiri en auk þess má sjá brot Þorvaldar Arnar Þorvaldssonar leikmann Vals í seinni hálfleik er hann braut á Pétri Árna Haukssyni. Keimlík atriði eða hvað? Dæmir hver fyrir sig.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.