Nuno Miguel Farelo (Dragomir Ovidiu)
Rúmenska liðið CS Minaur Baia Mare kom til Íslands seinni partinn í gær og æfir nú í Heklu-höllinni í Garðabæ fyrir seinni leik liðsins gegn Stjörnunni í forkeppni Evrópudeildarinnar. Mikið er undir en sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar er undir fyrir sigurvegara einvígsins. Fyrri leikur liðanna endaði með jafntefli 26-26 í kaflaskiptum leik þar sem Stjarnan komst mest fimm mörkum yfir um miðbik seinni hálfleiks. Seinni leikur liðanna fer fram í Heklu-höllinni í hádeginu á morgun klukkan 13:00. Portúgalinn Nuno Farelo tók við liði Baia Mare fyrir tímabilið. Hann segir að niðurstaðan í heimaleiknum hafi ekki verið sú sem liðið bjóst við en Farelo var í viðtali við heimasíðu félagsins fyrir brottförina til Íslands. ,,Í þessari keppni eru mörg gæðalið og það er ekki hægt að búast við öðru en erfiðum leikjum. Það mikilvægasta er að það eru enn möguleikar á að komast í næstu umferð og við verðum að vinna og líta betur út en í fyrri leiknum. Við verðum að einbeita okkur að þessum leik. Við áttum slakan leik en við getum komið til baka. Við verðum að vera varkárir og byrja seinni leikinn vel, vera varkárir í sókn og betri í vörn," sagði Nuno Farelo en Stjarnan hóf báða hálfleikina í fyrri leiknum töluvert betri en það rúmenska. Næst var þjálfari Baia Mare spurður út í lið Stjörnunnar og leikstíl þeirra. ,,Þeir spiluðu mjög árásargjarnt í fyrri leiknum en við erum atvinnumenn og nú þegar við þekkjum þá betur getum við búið okkur undir að bregðast við leik þeirra og gera okkar leik betri." Hann segir að lið sitt muni gera allt til þess að komast áfram í riðlakeppnina. ,,Það er það sem við erum að vinna að. Enginn leikur er eins. Við spiluðum tvo leiki í Ofurbikarnum sem voru gjörólíkir þeim leik sem við áttum gegn Stjörnunni. Við tökum allt alvarlega og reynum að halda áfram," sagði Portúgalinn að lokum í samtali við heimasíðu Baia Mare. Handkastið hvetur alla til að fjölmenna í Heklu-höllina á morgun og hvetja íslenskt lið áfram í Evrópudeildinni en Íslands- og bikarmeistrar Fram hafa nú þegar tryggt sér í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.