Hollenska landsliðið bætir við sig leikmanni
Laurent Lairys / DPPI via AFP)

Reinier Taboada (Laurent Lairys / DPPI via AFP)

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF hefur nú samþykkt að hinn 27 ára, Reinier Taboada fyrrum lærisveinn Guðmundar Þ. Guðmundssonar hjá Fredericia og núverandi leikmaður Benfica í Portúgal megi spila með hollenska landsliðinu.

Reinier Taboada sem er frá Kúbu fékk hollenskt ríkisfang árið 2024 og vonuðust Hollendingar eftir því að hann gæti spilað með landsliðinu á HM á þessu ári en það gekk ekki eftir.

Nú er hinsvegar ljóst að Taboada er orðinn löglegur með hollenska landsliðinu og gæti spilað með þeim í næsta landsliðsverkefni þar sem Holland tekur þátt í Golden League ásamt Færeyjum, Danmörku og Noregi, 30.október - 2. nóvember.

Þá leikur hollenska landsliðið á EM 2026 og eru þar í riðli með Svíum, Króatíu og Georgíu.

„Ég var himinlifandi þegar ég heyrði fréttirnar. Eftir svona langa bið get ég loksins spilað fyrir hollenska landsliðið. Ferlið hófst fyrir löngu síðan og við héldum að það yrði ekki lengur mögulegt, en nú þegar það er orðið að veruleika hlakka ég virkilega til að spila fyrir Holland,“ sagði Taboada við hollenska miðilinn handbal.nl

Taboada lék með Dunkerque í Frakklandi frá árunum 2018-2021. Þá lék hann eitt ár með Eurofarm Pelister í Norður-Makedóníu áður en hann gekk í raðir Fredericia og lék þar þrjú tímabil.

Hann skiptir yfir til Benfica í sumar.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top